Sunday, November 07, 2004

Hvað er það sem gerist ?

Við þurfum að byrja á byrjuninni og vita fyrst hvað hljóð er.

Hljóð eru bylgjuhreyfing sem fer um efni. Í umhverfi okkar eru mörg áreiti í formi hljóðbylgna, mismunandi mikil og mismunandi að gerð. Allt sem maður heyrir eru bylgjur sem fara um andrúmsloftið og enda í eyranu á okkur. Það sem framkallar hljóðbylgjunar getur verið hvað sem er, jafnvel einn títiprjónn sem fellur á gólfið, svo lengi sem að engin önnur hljóðáreiti trufla það. Best er samt að hugsa sér eitthvað hljóðfæri til að gera sér grein fyrir hvernig hljóð virkar. Tökum til dæmis trommu. Þegar við sláum á trommu, þá gengur skinnið á trommuni út og myndar þrýstibylgju. Við þessa þrýstibylgju sem myndast þá þjappast loftsameindirnar saman framan við trommuna.

Þrýstibylgjan fer því um loftsameindirnar, þ.e. bylgjan lemur á eina loftsameind á eftir annari, eins og í dómínó spili.

Hvernig greinum svo við hljóðið ?

Það sem gerist þegar að hljóðbylgja fer inn að eyranu er að bylgjan fer inn í hlustina og svo að hljóðhimnuni. Hljóðbylgjan veldur titringi í hljóðhimnuni. Titringurinn sem myndast í hljóðhimnuni er í takt við hljóðbylgjunar sem mynda titringinn. Nú er búið að koma af stað keðjuverkandi áhrifum innan eyrans. Titringurinn, eða hljóðbylgjan sem hljóðhimnan myndar fer núna áfram um hljóðbeinin þrjú, hamar, steðja og ístað.

Hlutverk þessara beina er að magna eða minnka hljóðið sem berast frá hljóðhimnuni að beinunum og koma þeim að kuðungnum, þar sem frekari úrvinnsla hljóða á sér stað.

Þegar bylgjan er búin að fara um hljóðbeinin þrjú fer hún í kuðunginn sem tengist frá ístaðinu að egglaga glugga inn í kuðunginn. Nafnið kuðungur er dregið af lögun sinni, sem er kuðungslaga. Kuðungurinn er fylltur vökva og breytist því hljóðbylgjan í bylgjuhreyfingu í vökva. Rétt fyrir neðan egglaga gluggan, þar sem ístaðið tengist kuðungnum, er annar gluggi sem er hringlaga. Þegar hljóðbylgja fer um ístaðið, þrýstist egglaga glugginn inn, en hringlagaglugginn fer út. Þetta er einhverskonar jafnþrýstibúnaður. Núna er hljóðbylgjan orðin að vökvabylgju inn í kuðungnum, þar sem sjálft skynfæri heyrnar.
Í kuðungnum eru þrjú hólf sem liggja eftir kuðungnum endilöngum, andarstigi, hljóðholsstigi og snigilrás. Öll hólfin eru vökvafyllt. Í snigilrásinni er svo sjálft skynfærið, þ.e. líffærið sem vinnur úr hljóðbylgjunum og breytir þeim í taugaboð svo við getum unnið úr þessum áreitum í heilanum. Þetta líffæri nefnist Líffæri Cortis.

En hvað er þetta líffæri Cortis sem er svo mikilvægt og hvað gerir það eiginlega ?

Eins og áður segir þá er líffæri Cortis í snigilrásinni í kuðungnum, á milli andarstiga og hljóðholsstiga. Neðsti hluti líffæris Cortiss er grunnhimnan og ofan á grunnhimnuni liggja hárfrumur. Upp úr þessu hárfrumum koma svo bifhár, en lengstu bifhár ystu frumnana (sem eru þrjár) festast svo við þekjuhimnuna. Bifhár innstu frumunar festast ekki við þekjuhimnuna.

Það sem gerist þegar líffæri Cortis nemur hljóð er að hljóð veldur farbylgju í kuðungnum og grunnhimna Liffæri Cortiss hreyfist í takt við bylgjuna. Við það breytist afstaða grunnhimnunar til þekjuhimnunar (neðri og efri hluti líffæris Cortiss) sem hvolfist yfir hana og við það sveiflast bifhár hárfrumna líffærissins. Þegar bifhár innri hárfrumunnar færast til verður spennubreyting í frumunni sem leiðir til þess að boðefni losnar frá hárfrumunni og taugavirkni verður í heyrnartauginni sem tengist viðkomandi hárfrumu.
Þegar þetta gerist, þá er hljóðið sem slíkt orðið að rafspennu sem fer upp heila til frekari úrvinnslu. Þarna er komið enn öðru stigi hljóðúrvinnslu. Hljóðbylgjan er búin að skila sínu og nú er komið að því að vinna úr þeim gögnum sem hljóðbylgjan kom til skila. Hljóðið er orðið að allt öðru heldur en það er á þessu stigi málsins.

Hvað verður nú um þessa hljóðbylgju þegar búið er að nema hana að fullu ?

Nú er búið að skynja hljóðbylgjuna og núna á aðeins eftir að koma skynupplýsingunum áleiðis til frekari úrvinnslu í heilanum. Frá kuðungnum, þar sem lokaskynjun á hljóðbylgjunni verður, liggja taugafrumur frá hárfrumum líffæris Cortis til heilastofnsins.

Fyrst fer taugaboðið frá líffæri Cortis til Skrúfhnoðu kuðungsins og þaðan með heyrnartaug að snigilkjarna. Frá snigilkjarna liggur leið taugaboðsins til efri ólífukjarna sem er í miðjum heilastofninum. Efri ólífukjarninn er æðra heyrnasvæði, sem og öll önnur heyrnarsvæði ofan þess. Í efri ólífukjarna eru komin taugaboð frá báðum eyrum, taugaboð koma einnig frá báðum eyrum í æðri heyrnarsvæðum. Frá efri ólífukjörnum liggja taugar til neðri hóla sem eru ofarlega í heilastofninum og þaðan liggja taugar til miðlægs hnélíks í stúkunni. Frá miðlægu hnélíki í stúku liggja taugar til heyrnarsvæða í heilaberkinum, til svæða 41 og 42. Taugaboðið fer alla þessa leið til endasvæðissins í heilaberkinum. Nú er búið að vinna úr taugaboðinu og nú er hægt að gera sér grein fyrir því hvað hljóðið var. Búið er að fullvinna öll gögn sem okkur barst og skila niðurstöðum.

Svona heyrum við hljóðið sem okkur berst frá umhverfinu !

Nú erum við búin að skynja hljóðið, en hvað gerist þegar við heyrum tónlist ? hvaða undarlegu tilfinning vaknar þegar við heyrum einhverja góða laglínu ?

Við þekkjum öll áhrif tónlistar á okkur. Við verðum æst þegar við heyrum fjöruga tónlist og að sama skapi syfjuð þegar við hlustum á róandi tónlist leikna. Þetta er svo sem löngu vitað og er notað óspart í okkar daglega lífi. Það þykir ekki sækja furðu að hröð tónlist sé spiluð á böllum á meðan róleg tónlist hljómar í mörgum búðum til að halda okkur þar lengur svo við læðum fleiri hlutum í körfuna okkar.
En tónlistin gerir meira en bara að æsa okkur upp eða róa. Tónlist vekur einnig upp tilfinningar sem virðist vera okkur stundum framandi.
Öll þekkjum við þá tilfinningu þegar við heyrum tónlist og hárin á hnakkanum fara að rísa. Við fáum gæsahúð og sælukennd alda spennu og slökunar fer um allan líkaman. Það sem gerist í raun er að sjálfvirka taugakerfið fer í gang og leysir úr læðingi adrenalín úr nýrnahettumergnum sem gerir það að verkum að blóðþrýstingur hækkar, hjartsláttartíðni eykst, æðar þrengjast í flestum innyflunum og húðinni og afköst vöðva aukast.

Það virðist sem svo að semjukerfi fari í gang og búi okkur undir átök, þrátt fyrir að við séum bara að upplifa tónlistina sem við heyrum.

Þau sérstöku atriði í tónlist sem vekja upp þessar tilfinningar er tónaröðunin og skyndilegar breytingar. Við lærum stílreglur tónlistarinnar sem við hlustum á og búum okkur til ómeðvitaðar væntingar um það sem á að koma næst í tónlistinni, við búumst við ákveðinni lausn á tónlistinni. Þegar frávik verða á þessum ómeðvituðu væntingum (sem gerist í raun í hvert skipti þegar hlustað er á ókunna tónlist) þá bregst sjálfvirka taugakerfið við með lífeðlislegri örvun.
Tónaröðin frá e- fís gefur upp væntingu um að gís ljúki röðinni, en með því að tefja röðina eða breyta endanum (frávik væntinga) þá er verið að búa til þessa tilfinningu. Geðshræringarmynstrið í öllum slíkum atriðum er slökun – örvun – spenna – lausn – slökun.

Þrátt fyrir að frávik væntinga á tónlist skapi þessa tilfinningalegu skynjun á henni, þá meiga frávikin ekki verða of mikil. Mátulega mikil frávik frá væntingum tónlistar vekur upp þessi tilfinningalegu viðbrögð sem hlustandinn sækist eftir.
Þessi frávik skapa tilfinningalega örvun sem valda gleði eða reiði, en það er hlutverk hlustandans að túlka þessa tilfinningalegu örvun sem á sér stað. Túlkunin er samt ekki alltaf sú sama í hvert skipti þegar hlustandinn heyrir sömu tónlistina aftur. Líðan, smekkur, einbeiting, minningar, aukin kynni við tónlistina, áherslubreytingar í hlustun o.sv.f.v. hafa öll áhrif á næstu túlkun sömu tónlistar.

Fólk sem heldur að það sé gjörsamlega ónmæmt fyrir tónlist (laglaust) skynjar samt tónlist á rétta vegu, getur til dæmis sagt til um hvort tónlist sé glaðleg eða dapurleg auðveldlega. Það stafar af því að unnið er samhliða úr hljóðum í randkerfinu, sem tekur eingöngu eftir tilfinninga hlutanum. Fiðringurinn er líka alltaf til staðar, þó svo að við skiljum hann ekki.

Svo einfalt er nú það allt saman.

Þetta er allt ferlið sem fer af stað þegar við heyrum eitthvað og skynjum. Tónlistin sem við lesum úr þessum skynjunum hefur líka áhrif á okkur og vekur með okkur tilfinningar sem við skiljum kannski ekki alltaf, en auðvitað getum við lesið úr öðrum sem við upplifum þegar við heyrum tónlist.

Sigmar Bóndi Arnarsson